DAGBÓK

PR-maðurinn

12.9.2020
Ég hafði ekki séð það fyrir að ég ætti eftir að nota heilan dag í að auglýsa sjálfan mig. En það gerði ég í gær. Mér finnst það ekki létt verk og þótt ég segi kannski ekki að ég skammist mín fyrir þessa iðju finnst mér þetta dálítið neyðarlegt. Ég ákvað sem sagt að skrifa til þeirra fjölmiðla sem mig langar að tala við þegar ég kem til Íslands vegna útgáfu nýju bókarinnar. Ég legg af stað með flugi þann 29. september frá Danmörku og lendi samdægurs á Íslandi. Ég hef þegar fengið flugmiða. Svo er það annað mál hvort flugfélagið flýgur á þessum degi. Þessi mikla auglýsingaherferð mín hefst því þann 5. október þegar ég er búinn að afplána einangrunarvistina í Hvalfirðinum.

Það gladdi mig auðvitað óskaplega að allir sem ég hafði samband við og hafa náð að svara erindi mínu voru yfirmáta jákvæðir og samvinnufúsir. Allir voru boðnir og búnir að greiða leið mína. Ég var því bæði snortinn og svolítið undrandi hvað mér var tekið af mikilli og innilegri hlýju. Allt bendir því til þess að þessi hlægilega PR-herferð mín heppnist því betur en ég hafði látið mig dreyma um.

Á meðan ég dundaði mér við að herja á fjölmiðlamenn á Íslandi gerði ég heimasíðu fyrir höfundinn, www.snaebjornarngrimsson.com. Allt er þetta frekar hégómlegt en ég neyðist víst til að berjast fyrir rithöfundarferlinum og þá verður maður að gera sitt besta til að selja bækur. Annars þarf ég að fara í byggingarvinnu, sem er kannski ágætt, en ekki það sem mig dreymir um.

ps. Ég hljóp í morgun mitt svokallaða langhlaup. Ég tek framförum. Ég hljóp suma kílómetrana nokkuð undir 5 mínútum (það er minna en 5 mín pr. km). Garmin úrið mitt sýnir að ég hef 46 í svokölluðum VO2 Max level sem þýðir að ég líkamasaldur minn er 20 ár. Yo!


11.9.2020
Tvisvar í lífi mínu hef ég unnið á bar; einu sinni á Ítalíu í Mílanó á hálfgerðum leynibar þar sem fáir komu. Hann hét Winslow & Winslow Old English Pub. Hitt skiptið vann ég á lítilli, aftar snyrtilegri krá í einu af úthverfum London rétt við Shelhurst Park sem heitir eða hét The Clifton Arms.

Eigandinn, Sofie, var Gyðingur með stóru G-i. Hún var ekki bara fyrst og fremst gyðingur hún var nánast eingöngu gyðingur. Hún talaði ekki um sig sem konu – hún var ung, greind og bráðfalleg – hún talaði ekki um sig sem bareiganda, þótt hún hefði afrekað það á unga aldri að eignast þessa krá og hún talaði ekki um sig sem dugnaðarfork þótt sjaldan hafi ég hitt duglegri manneskju. Hún taldi ekki skrefin sín. Hún var Gyðingur. „Ég er Gyðingur,“ sagði hún á hverjum degi.

Ég fór að hugsa um Sofie í gærkvöldi þegar ég rakst á setningu í bók sem ég var að lesa: Að óttast Drottinn er upphaf spekinnar. Og allt í einu birtist hún mér í huganum, Sofie og The Clifton Arms. Það er orðið langt síðan það var. En einmitt þessi sömu orð á ensku, The fair of the Lord is the beginning of wisdom ... voru prentuð með pínulitlu letri á gulan renning sem Sofie hafði límt á peningakassann á kránni. Í hvert skipti sem ég afgreiddi hina áköfu ensku bargesti – flestir með Crystal Palace trefil um hálsinn – las ég því þessi orð og þau sitja enn föst í mér.

Ég bjó ekki lengi í London en ég afrekaði að kaupa mér mótorhjól sem ég notaði til að ferðast um Suður-England þegar ég átti frí hjá Sofie. Ég hafði alltaf haft þann draum að flytjast um tíma til Englands, bæði foreldrar mínir og systir höfðu áður búið í Englandi og í mínum huga var England grösugar hæðir, mjóir hlykkjóttir sveitavegir, sveitakrár og heiðarlönd þar sem villihestar stóðu þöglir í heiðarþokunni.


Hér er hægt að fylgjast með nýjum færslum í dagbókina

Nýjar dagbókarfærslur beint í tölvupósti.

%d bloggurum líkar þetta: